Trygggvi Ólafsson

– líf hans og list

Um Tryggva Ólafsson

í Tryggvi Ólafsson fæddist í Neskaupstað 1. júní árið 1940. Hann fékk snemma áhuga á myndlist og sem barn teiknaði hann það sem fyrir augun bar. Eins hóf hann snemma að mála vatnslitamyndir af fuglum, skútum, húsum og mönnum. Þegar hann var 10 ára að aldri fór hann í sveit að Tjarnarlandi í Hjaltastaðaþinghá. Þar gat hann fylgst með meistara Kjarval að störfum en listamaðurinn hafði reist sér lítinn skúr í nágrenninu og fékkst gjarnan við að mála utan dyra. Það sem vakti ekki síst athygli Tryggva var að Kjarval starfaði við list sína en á Norðfirði var slíkt óþekkt því  þar voru allir sjómenn, verkamenn, smiðir eða eitthvað slíkt.

Tryggvi lagði mikla rækt við teikningu í Nesskóla, barnaskólanum í Neskaupstað og fermingarpeningana sína nýtti hann til að kaupa olíuliti og ýmsan búnað og efni sem listmálarar notuðu. Hóf hann þegar að mála með olíulitunum og lagði þá áherslu á landslagsmyndir.

Árið 1956 fluttist Tryggvi og fjölskylda hans suður til Reykjavíkur vegna veikinda móður hans. Hann hélt þó tengslunum við Norðfjörð og lagði þar stund á sjómennsku á sumrin næstu árin. Þegar Tryggvi flutti suður hóf hann nám í Menntaskólanum í Reykjavík og haustið 1958 gafst honum kostur á að sækja námskeið í teikningu hjá Hringi Jóhannessyni myndlistarmanni. Námskeiðið tengdist starfsemi Myndlista- og handíðaskólans og að loknu stúdentsprófi lagði Tryggi stund á nám við skólann veturinn 1960-1961.

Þegar hér var komið sögu hafði Tryggvi ákveðið að mennta sig á sviði myndlistar. Hann fékk inngöngu í Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn og nam þar frá haustinu 1961 til ársins 1966 eða í fimm ár. Helsti kennari hans þar var Søren Hjorth Nielsen og urðu þeir hinir mestu mátar.  Til viðbótar lærði Tryggvi í eitt ár við hinn grafíska skóla akademíunnar þannig að hann lauk endanlega námi árið 1967.

Að loknu náminu sinnti Tryggvi ýmsum störfum í Kaupmannahöfn en á árunum 1969-1970 kom hann sér upp vinnustofu og hóf að helga sig myndlistinni. Á næstu árum þróaði hann sinn sérstaka stíl og málaði framan af einnig töluvert af pólitískum myndum enda flestir á þeim tíma uppteknir af hrikalegum átökum í heiminum og nægir þar að nefna stríðið í Vietnam.

Brátt kom að því að nafn Tryggva varð þekkt í heimi listarinnar en ávallt lagði hann áherslu á að halda góðum tengslum við fólk á æskustöðvunum. Hann sóttist eftir að fá Norðfirðinga í heimsókn á vinnustofuna í Kaupmannahöfn og þá fékk hann haldgóðar fréttir úr gamla heimabænum. Hann heimsótti Neskaupstað af og til og þá var ávallt glatt á hjalla. Þegar Tryggvi hafði mótað sinn persónulega stíl í myndlistinni þótti tímabært að hann héldi sýningu í Neskaupstað  og það gerði hann í nóvembermánuði 1975. Síðar átti hann eftir að skreyta hús í Neskaupstað og er verk hans á norðurhlið Fjórðungssjúkrahússins án efa það þekktasta af því tagi. Einnig gerði Tryggvi fagran mósaíkskjöld til minningar um þau sem fórust í snjóflóðunum í Neskaupstað 20. desember 1974. Aðra málverkasýningu í Neskaupstað hélt Tryggvi síðan  árið 1984.

Árið 2007 slasaðist Tryggvi illa og var eftir það bundinn við hjólastól. Í kjölfar slyssins fluttu hann og eiginkona hans, Gerður Sigurðardóttir, til Íslands og settust að í Reykjavík. Þar með lauk fjörutíu og sjö ára dvöl hans í Kaupmannahöfn. Þrátt fyrir fötlunina hélt Tryggvi áfram að sinna list sinni. Hann gat að vísu ekki málað lengur en þess í stað gerði hann litógrafíur frá árinu 2013. Síðustu árin bjó Tryggvi á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum þar sem hann kom sér upp aðstöðu til vinnslu grafíkverka. Tryggvi lést 3. janúar árið 2019.

Segja má að listamannsferill Tryggva hafi verið glæsilegur. Hann hélt sína fyrstu málverkasýningu í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1960 eða ári áður en hann hélt til náms í Kaupmannahöfn. Í Danmörku tók hann þátt í haustsýningu listamanna á Den frie haustið 1963 en efndi til fyrstu einkasýningarinnar þar með hönnuðinum Erik Magnussen í Galleri Jensen í Kaupmannahöfn árið 1966. Tryggvi var félagi í SÚM-hópnum og sýndi með honum á árunum 1969-1977 . Eins tók hann þátt í sýningum hópsins Den nordiske í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi á árunum 1970-1980. Tryggvi skreytti byggingar bæði í Danmörku og á Íslandi. Árið 1976 gerði hann kvikmynd um kennara sinn, Søren Hjorth Nielsen, ásamt kvikmyndaleikstjóranum H. H. Jørgensen. Þá myndskreytti Tryggvi fjölda bóka sem gefnar voru út í Danmörku og á Íslandi. Árið 1984 var gerð heimildamynd um list Tryggva í leikstjórn Baldurs Hrafnkels Jónssonar og eins hafa bækur um list Tryggva verið gefnar út. Árið 2004 gaf Mál og menning út bók um Tryggva sem Helgi Guðmundsson ritaði.

Tryggvi tók þátt í sýningum í öllum höfuðborgum Norðurlanda og einnig í Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi, Englandi, Bandaríkjunum og Kína. Einnig sýndi hann list sína margoft á Íslandi. Á árinu 2000 var haldin stór yfirlitssýning á verkum hans á Gerðarsafni í Kópavogi. Verk eftir Tryggva er að finna á sautján listasöfnum á Norðurlöndunum utan Íslands og auk þess víða um heim. Á seinni árum hafa verið haldnar sýningar á verkum hans í París, gallerí Fold í Reykjavík, á Ísafirði og tvær stórar yfirlitssýningar, sú fyrri á Akureyri og sú síðari á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Síðasttöldu sýningarnar voru haldnar í samvinnu við Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupstað.

Tryggvi hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir list sína. Vorið 2017 var hann til dæmis sæmdur riddarakrossi af Dannebrog og 17. júní sama ár var honum veitt íslenska fálkaorðan.

Stundum stranda ég með málverk og þá fer ég aftur af stað og safna drasli og skoða mig um til að fá hugmyndir.

List Tryggva Ólafssonar

Þegar Tryggvi Ólafsson lauk námi í listaakademíunni í Kaupmannahöfn stóð hann á tímamótum. Hann hafði lagt áherslu á abstraktlist á námstímanum en hafði fengið nóg af henni. Hann hafði „málað sig út í horn,“ eins og hann orðaði það sjálfur.  Hið óhlutbundna málverk virtist ekki henta honum og hóf hann að leggja stund á hefðbundna daglaunavinnu í höfuðborg Danaveldis. Af og til greip hann þó í pensilinn og að því kom að hann hóf að þróa með sér nýjan stíl auk þess sem hann tók á tímabili að mála pólitískar myndir. Á árunum 1969-1970 varð Tryggvi sér úti um vinnustofu í Kaupmannahöfn og eftir það var ekki snúið til baka; hann hóf að helga sig myndlistinni. Ýmsir kenndu hinn nýja stíl Tryggva við popplist en listamaðurinn sjálfur leggur áherslu á að áhrifa popplistarinnar hafi einungis gætt við upphaf hins nýja mótunarferils á listabrautinni.

Hinn nýi stíll Tryggva einkenndist af því að hann raðaði saman allskyns brotum úr veruleikanum. Á myndfletinum gat birst landslag, mannslíkamar, dýr og hin fjölbreytilegustu tæki og tól. Þessu raðaði listamaðurinn saman og gekk alltaf lengra og lengra í því „að ljúga sögum á myndflötinn.“ Hann teygði, togaði og raðaði upp á nýtt. Tryggvi líkti þessu gjarnan við gott djasssóló þar sem spunnið var í kringum laglínu án allrar áreynslu. Í viðtali við blaðið Austurland árið 1975 útskýrði hann með skýrum og einföldum hætti hvernig mynd yrði til hjá honum:

Ég safna drasli, oft gömlu og verðlausu drasli, sem ég fæ hjá fornsölum eða hirði á öskuhaugum eins og ég gerði sem strákur á Norðfirði. Síðan hugsa ég um þetta dót í stærðarhlutföllum innan myndflatarins. Þá fyrst er komið að því, sem ég hef mestan áhuga á í myndlistinni – litunum. Þeir koma inn þegar ég fer að vinna þetta sem daglegt verk. Stundum stranda ég með málverk og þá fer ég aftur af stað og safna drasli og skoða mig um til að fá hugmyndir.

Ýmsir listfræðingar hafa lýst list Tryggva Ólafssonar og skulu hér nefnd tvö dæmi. Fyrst skal birt brot úr lýsingu Peter Michael Hornung:

Sem myndlistarmaður leggur Tryggvi Ólafsson stund á sviðsetningu þess óvænta. Hann velur og hafnar meðal hluta og lífvera utan úr hinum stóra heimi og setur það síðan á svið í þeim litla heimi sem myndverkið er. Hann skapar kyrralífsmynd sem er allt annað en kyrr, sem grípur tilvitnanir frjálst og af bíræfni úr allri sögu mannkynsins. Hann byggir upp rammann og ákveður innihaldið og setur síðan traust sitt á að allir þessir margvíslegu hlutir, sóttir hvaðanæva frá, geti talað saman. Það eru ekki til neinar hversdagslegar samræður sem eiga sér stað milli þeirra hluta sem þannig er stefnt saman frá mismunandi tímum og menningarheimum. Hlutirnir hafa kannski ekki einu sinni verið í nánd hver við annan áður, og hafi þeir verið það hafa samfundirnir kannski verið gersamlega tilviljanakenndir og lauslegir.

Halldór B. Runólfsson hefur einnig lýst list Tryggva eftir að hún var fullmótuð og getur þá um þrykk- og klippimyndir auk málverka og teikninga. Í lýsingunni segir hann meðal annars eftirfarandi:

Aðferðir Tryggva fólust nú æ meir í gjörnýtingu ákveðins myndefnis, stöðlun táknmáls; margvíslegri gerð smárra undirbúningsmynda, þrykk- og klippimyndatækni og endurmálun sama yrkisefnis með smáum og stórum breytingum. Smám saman hlutu slík vinnubrögð að leiða til meiri samþættingar og samþjöppunar táknmáls, lita og formteikningar. Sífellt næmari litanotkun stuðlaði að fækkun óþarfa tónamergðar og gerði samspil línu og forma markvissara. Leiddi það til emblematískra málverka sem minntu í víðtækasta skilningi á samsett og flókin tákn- eða skjaldarmerki. Jafnframt því óx allegórískt og safnkennt yfirbragð myndefnisins.

Komdu í heimsókn

Tryggvasafn
Egilsbraut 2
740 Neskaupstað