Tryggvasafn

Aðdragandinn

Magni Kristjánsson fyrrverandi skipstjóri í Neskaupstað og Sigríður Guðbjartsdóttir eiginkona hans söfnuðu lengi verkum eftir Tryggva Ólafsson. Magni þekkti Tryggva vel frá æskuárunum og hafði fylgst náið með framgangi hans á listabrautinni. Þeir endurnýjuðu vinskapinn á fullorðinsárum og í hvert sinn sem Magni átti leið um Kaupmannahöfn heimsótti hann Tryggva á vinnustofuna og þá urðu fagnaðarfundir.

Áhugi Magna á list Tryggva leiddi til þess að hann fékk þá hugmynd að kanna hvort ekki væri vilji fyrir því hjá listamanninum að koma á fót safni um listsköpun hans í gamla heimabænum. Það var um jólin árið 2000 sem Magni viðraði þessa hugmynd við Tryggva í löngu bréfi. Tryggvi tók strax vel í hugmyndina og hófust þeir félagar þegar handa við að undirbúa stofnun safns í Neskaupstað. Lögð var áhersla á að safnið ætti ekki einungis að varðveita og sýna myndir listamannsins heldur ætti það einnig að safna öllu því sem tengdist lífi hans eins og til dæmis minnisbókum, skissum, alls konar vinnuteikningum og öðrum upplýsingum um störf hans. Í upphafi var gert ráð fyrir því að undirbúningurinn að stofnun safnsins tæki sex til tíu ár en reyndin varð sú að hann tók miklu skemmri tíma.

Um líkt leyti og hugmyndin um stofnun safnsins kom til festi Magni kaup á gamla kaupfélagshúsinu að Hafnarbraut 2 í Neskaupstað. Í húsinu var góð sýningaraðstaða fyrir myndlist og flýttu kaupin mjög fyrir stofnun safnsins. Leitað var til bæjarstjórnar Fjarðabyggðar eftir stuðningi og voru undirtektir hennar mjög jákvæðar.

Opnun safnsins

Málverkasafn Tryggva Ólafssonar, í daglegu tali ávallt nefnt Tryggvasafn, var formlega opnað í gamla kaupfélagshúsinu 29. september 2001, einungis rúmlega einu og hálfu ári eftir að hugmyndin um stofnun safnsins var fyrst viðruð. Í tilefni opnunarinnar var efnt til stórrar málverkasýningar sem spannaði allan listamannsferil Tryggva. Menntamálaráðherra lýsti safnið opnað með ræðu og færði því að gjöf stóra mynd eftir Tryggva ásamt því að tilkynna um stofnstyrk frá ríkinu. Eins var tilkynnt um að sveitarfélagið Fjarðabyggð hygðist veita safninu árlegan styrk til listaverkakaupa.

Á opnunarsýningunni voru níutíu og níu málverk og klippimyndir sem Tryggvi sá sjálfur um að hengja upp. Um þrjátíu verkanna voru í eigu hins nýja safns og höfðu þau komið frá Tryggva, Magna, íslenskum og dönskum einkaaðilum og sveitarfélaginu Fjarðabyggð.

Starfsemi safnsins í mótun

Þegar á árinu 2002 hófst umræða um það hvernig mætti treysta grundvöll Tryggvasafns og fá fleiri til að leggja eitthvað af mörkum til þess. Fljótlega kom upp sú hugmynd að skynsamlegast væri að safnið yrði sjálfseignarstofnun með þátttöku fyrirtækja og stofnana. Hófst fljótlega undirbúningur að stofnun slíkrar sjálfseignarstofnunar.

Á árunum 2003 og 2004 var komið upp sumarsýningu á vegum safnsins í gamla kaupfélagshúsinu og voru þá meðal annars sýnd ný verk sem safninu höfðu áskotnast. Að því kom að gamla kaupfélagshúsið var tekið til annarra nota og þá þurfti að finna Tryggvasafni nýjan sýningarstað. Árið 2004 hófst umræða um að koma þremur söfnum fyrir í svonefndu Hafnarhúsi í Neskaupstað og hófst brátt vinna við það verkefni. Söfnin sem um ræðir voru Tryggvasafn, Náttúrugripasafnið í Neskaupstað og Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar. Framkvæmdir við húsið voru hafnar og á árinu 2007 var lokið við að koma öllum söfnunum fyrir í því en Tryggvasafn fékk sýningarrými á neðstu hæðinni.Í samræmi við hið nýja hlutverk var farið að nefna húsið Safnahúsið í Neskaupstað. Frá þessum tíma hefur Tryggvasafn ávallt sett upp sumarsýningu í Safnahúsinu.

Sjálfseignar-
stofnun komið á fót

Stofnfundur sjálfseignarstofnunarinnar Myndlistarsafns Tryggva Ólafssonar var haldinn í Gallerí Fold í Reykjavík 24. ágúst 2007. Stofnendur voru eftirtaldir: Tryggvi Ólafsson, Magni Kristjánsson, Fjarðabyggð, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, Sparisjóður Norðfjarðar, Alcoa-Fjarðaál sf. og Landsbanki íslands hf.

Á fundinum var stofnskrá samþykkt og kjörin stjórn. Stjórnina skipuðu eftirtaldir: Magni Kristjánsson formaður, Freysteinn Bjarnason ritari og Jón Sveinsson gjaldkeri. Smári Geirsson var kjörinn varamaður. Árið 2009 hvarf Magni úr stjórninni og tók Smári þá sæti hans þar. Við brotthvarf Magna tók Freysteinn við formennsku, Smári varð ritari en Jón gegndi áfram störfum gjaldkera. Á aðalfundi 2018 varð mikil breyting á stjórninni en þá létu þeir Freysteinn og Jón af stjórnarstörfum en í þeirra stað komu Berglind Þorbergsdóttir og Gígja Tryggvadóttir en Sigrún Víglundsdóttir var kjörin varamaður. Við þessa breytingu tók Smári við formennsku, Gígja varð ritari og Berglind gjaldkeri.

Eins og fyrr greinir hefur Tryggvasafn sett upp sumarsýningu árlega í Safnahúsinu en árið 2010 var komið upp listaverkageymslu fyrir safnið. Húsnæðið er í eigu Samvinnufélags útgerðarmanna og er geymslan nýtt án endurgjalds en hún var sérstaklega innréttuð með þarfir safnsins í huga.

Listaverkaeign

Þegar fyrsta sýning Tryggvasafns var opnuð árið 2001 voru um þrjátíu málverk í eigu þess. Um mitt ár 2002 hafði verkunum fjölgað verulega en þá átti safnið á níunda tug olíumálverka auk fjölda grafíkverka og myndlýsinga. Spönnuðu verkin allan listamannsferil Tryggva, allt frá æskuverkum til seinni tíma verka. Áfram var það listamaðurinn og Magni Kristjánsson sem létu safninu flest verk í té.

Við stofnun sjálfseignarstofnunarinnar árið 2007 voru 210 verk í eigu safnsins; 87 akryl-, lakk-, og olíuverk og 123 vatnslitamyndir, litógrafíur og teikningar. Frá stofnun sjálfseignarstofnunarinnar hefur safnstjórnin lagt áherslu á bæta myndum í safnið eftir því sem fjárhagur hefur leyft. Einkum hefur verið lögð áhersla á að kaupa myndir sem fylla í skörð í myndaeigninni en mikilvægt er að safnið eigi myndir sem veita góða innsýn í allan feril listamannsins og þær breytingar sem urðu í listsköpun hans. Einnig hefur safnið fengið myndir að gjöf og er það einkar þakkarvert.

Nú eru í eigu Tryggvasafns um 150 lakk-, olíu-, og akrýlmyndir, um 180 litógrafíur, klippimyndir og teikningar auk prentaðra plakata. Alls eru því verk í eigu safnsins vel á fjórða hundrað.