Safnahúsið

– heimili Tryggvasafns

Árið 2007 höfðu þrjú söfn komið sér fyrir í áhugaverðu húsi í miðbæ Neskaupstaðar. Tryggvasafn fékk til umráða sýningarsal á neðstu hæð hússins, á annari hæðinni var sýningu Sjóminja- og smiðjumunasafns Jósafats Hinrikssonar komið upp og á efstu hæðinni réð Náttúrugripasafnið í Neskaupstað ríkjum. Frá þessum tíma hafa söfnin þrjú átt innilega og góða sambúð í húsinu, en það hefur verið nefnt Safnahúsið frá því að söfnin fengu þar inni.

Safnahúsið var reist árið 1922 af Hinum sameinuðu íslensku verslunum og var þá stærsta húsið í Nesþorpi. Í upphafi var húsið nýtt til fiskverkunar og sem vörugeymsla. Sameinuðu verslanirnar urðu gjaldþrota árið 1926 og fljótlega eftir það eignaðist hafnarsjóður sveitarfélagsins húsið. Eftir að húsið komst í eigu hafnarsjóðs var það nýtt með ýmsum hætti. Það var notað sem vörugeymsla og fiskgeymsla, sem beitningaraðstaða og til saltfiskverkunar. Netagerð var starfrækt í húsinu í um tvo áratugi  og þar hafði útgerð Síldarvinnslunnar einnig geymslu- og viðgerðarými. Allmiklar lagfæringar og breytingar varð að gera á húsinu áður en söfnin gátu flutt inn í það en fullyrða má að það fer vel um söfnin í því.

Tryggvasafn í Safnahúsinu
Egilsbraut 2
740 Neskaupstað