Hinn 1. júní sl. hefði Tryggvi Ólafsson listmálari orðið áttræður, en hann lést 3. janúar árið 2019. Í tilefni af því hefur verið opnuð sumarsýning í Tryggvasafni í Safnahúsinu í Neskaupstað sem ber heitið Úrval. Safnahúsið verður opið hvern dag í sumar kl. 10-18 allt til ágústloka og er fólk hvatt til að heimsækja húsið og njóta áhugaverðrar listar ásamt því að skoða Náttúrugripasafnið í Neskaupstað og Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar sem einnig eiga sýningar þar.
Þó Tryggvi dveldi stærstan hluta listamannsferils síns í Kaupmannahöfn hélt hann ávallt sterkum tengslum við fæðingarbæ sinn, en hann var fæddur og uppalinn í Neskaupstað. Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar í Neskaupstað, í daglegu tali nefnt Tryggvasafn, var stofnað árið 2001 og á safnið nú á fjórða hundrað verka eftir listamanninn.
Listamannsferill Tryggva Ólafssonar var svo sannarlega glæsilegur. Hann var einn af brautryðjendum svonefndrar popplistar á Íslandi og var stíll hans auðþekkjanlegur. Hann var ástsæll listamaður og eru verk hans eftirsótt. Tryggvi lét sér fátt um finnast hvað aðrir sögðu. Þrátt fyrir að stefnur og straumar tækju ýmsum breytingum hélt hann sínu striki og hafði skýra sérstöðu.
Fyrstu málverkasýningu sína hélt Tryggvi í Reykjavík árið 1960 eða ári áður en hann hélt til náms í Listaakademíunni í Kaupmannahöfn. Tryggvi var félagi í SÚM-hópnum og sýndi með honum á árunum 1969-1977 og eins tók hann þátt í sýningum hópsins Den nordiske í Danmörku, Svíþjóð og á Íslandi á árunum 1970-1980. Tryggvi skreytti byggingar í Danmörku og á Íslandi og eins myndskreytti hann fjölda bóka.
Tryggvi tók þátt í sýningum í öllum höfuðborgum Norðurlanda og einnig í Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi, Englandi, Bandaríkjunum og Kína. Einnig sýndi hann margoft á Íslandi og á árinu 2000 var haldin stór yfirlitssýning á verkum hans í Gerðarsafni í Kópavogi. Verk eftir Tryggva er að finna á sautján listasöfnum á Norðurlöndunum utan Íslands og auk þess víða um heim. Á seinni árum hafa verið haldnar sýningar á verkum hans í París, Gallerí Fold í Reykjavík, á Ísafirði og tvær stórar yfirlitssýningar, sú fyrri á Akureyri og sú síðari á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn. Báðar síðasttöldu sýningarnar voru haldnar í samstarfi við Tryggvasafn í Neskaupstað.
Er fólk eindregið hvatt til að skoða sýninguna Úrval í Safnahúsinu í Neskaupstað og upplifa þá litadýrð sem felst í forvitnilegum verkum Tryggva Ólafssonar.