Hinn 1. júní sl. var sumarsýning Tryggvasafns opnuð í Safnahúsinu í Neskaupstað. Sýningin ber heitið Stemmning og er skýringin á heitinu sú að margir sem skoða verk eftir Tryggva Ólafsson greina frá því að þeir upplifi við það ákveðna og sérstaka stemmningu. Safnahúsið verður opið hvern dag í sumar kl. 13-17 allt til ágústloka. Er fólk hvatt til að heimsækja Safnahúsið og njóta listarinnar ásamt því að skoða sýningu Náttúrugripasafnsins í Neskaupstað og Sjóminja- og smiðjumunasafns Jósafats Hinrikssonar sem einnig eru þar til húsa.
Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar, sem í daglegu tali er gjarnan nefnt Tryggvasafn, á um 400 verk eftir listamanninn og er árlega sett upp sumarsýning í Safnahúsinu með verkum hans. Tryggvasafn hóf starfsemi í Neskaupstað árið 2001 og hefur eflst jafnt og þétt síðan. Árið 2007 var ákveðið að gera safnið að sjálfseignarstofnun til að tryggja grundvöll þess bæði fjárhagslega og rekstrarlega. Stofnendur sjálfseignarstofnunarinnar voru sjö talsins, bæði einstaklingar og fyrirtæki.
Norðfirðingurinn Tryggvi Ólafsson átti glæsilegan listamannsferil. Hann hóf kornungur að sinna listinni heima í Neskaupstað en síðan lá leiðin til Reykjavíkur og þaðan til Kaupmannahafnar þar sem hann lagði stund á nám í Konunglegu listaakademíunni. Að loknu listnámi settist Tryggvi að í Kaupmannahöfn og þar dvaldi hann stærstan hluta síns listamannsferils.
Verk eftir Tryggva hafa verið sýnd víða um heim og hefur list hans vakið mikla athygli. Ávallt lagði Tryggvi áherslu á að halda góðum tengslum við gamla heimabæinn á Íslandi og þegar Norðfirðingar áttu leið um Kaupmannahöfn litu þeir gjarnan við á vinnustofu listamannsins. Árið 2007 slasaðist Tryggvi illa og í kjölfar þess flutti hann og eignkona hans, Gerður Sigurðardóttir, til Íslands. Eftir slysið hélt Tryggvi áfram að sinna list sinni og gerði þá litógrafíur. Tryggvi lést 3. janúar árið 2019.
Á þeirri sýningu sem nú hefur verið sett upp í Safnahúsinu eru 52 verk og eru þau öll frá árunum 1954-1995. Elstu verkin eru frá þeim tíma þegar Tryggvi var ungur drengur í Neskaupstað að byrja að mála en yngstu verkin gefa mynd af list hans þegar hún var orðin fullmótuð. Er fólk eindregið hvatt til að leggja leið sína í Safnahúsið í Neskaupstað og upplifa þá stemmningu sem listaverk Tryggva Ólafssonar skapa.
Recent Comments